GODO Greinar

Fyrir þá sem hafa verið lengi í hótel- og gistirekstri voru það ferðaskrifstofur sem sáu um meginþorra bókana, sér í lagi áður en bókunarsíður eins og Booking.com og Expedia komu á sjónarsviðið og í raun áður en Ísland varð svona gríðarlega vinsælt eins og það er í dag. Yngri ferðamenn hinsvegar vilja mikið bóka beint og lesa sig til sjálfir um áfangastaðinn sem þeir heimsækja.

Í dag má skipta hlutfalli bókana í þrennt; beinar bókanir (t.d. af heimasíðu), bókunarsíður og bókanir frá ferðaskrifstofum. Til að ná sem bestum árangri er ákjósanlegt að vera sýnilegur á öllum vígstöðum. Þar eru ferðaskrifstofur ekki síður mikilvægar en í dag eru mörg hundruð ferðaskrifstofur að bóka gistingu á Íslandi.

Ólíkt bókunarsíðum gilda önnur lögmál en þegar kemur að bókunum frá ferðaskrifstofum. Þar skiptir miklu máli að skilja hvernig þeirra verkferlar eru til að ganga úr skugga um að þinn gististaður verði fyrir valinu. Ferðaskrifstofur oft ferðapakka sem inniheldur meira en gistingu. Í þeim ferðapakka gæti verið gisting, afþreying og bíll. Ferðaskrifstofan er því að versla þjónustu af mörgum aðilum og eru því að búa til heildarupplifun fyrir ferðamanninn. Mikilvægt er að allir birgjar séu innan þeirra ramma sem ferðaskrifstofan starfar undir.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Verðlistar

Ferðaskrifstofur vinna með mörgum aðilum eftir landssvæðum og gæðaflokkum og í sumum tilfellum mismunandi löndum. Þar af leiðandi skiptir máli að halda skipulagi og einfaldleika í verkferlum fyrir starfsfólk. Verðlistar með takmörkuðum herbergjategundum og einföldum verðum skipta því miklu máli. Ekki setja upp verðlista með ýmisskonar aukakostnaði (t.d. lín eða með álagi á þrif) eða hafa úr fjölmörgum svipuðum herbergjum úr að velja (t.d. fjalla- eða sjó útsýni). Einfaldleikinn hjálpar í allri ákvörðunartöku og kemur þér ofarlega í röðinni til að vera fyrstur fyrir valinu.

 
  • Skilmálar

Eins og með verðlista þá skiptir líka máli að hafa skilmála einfalda og raunhæfa. Margir falla í þá gryfju að setja upp skilmála eftir sínu höfði en ekki eftir því hvernig er aðgengilegast að fá ferðaskrifstofur til að bóka á þínum gististað. Ef að afbókunarskilmálar eru of stífir þá eru settar skorður á söluaðila að bóka þinn gististað. Síðustu misseri hefur bókunarglugginn styst. Flestar ferðaskrifstofur eru heiðarlegar og bóka í þeirri trú að ferðin verði að veruleika. Það er því oft betra að setja fram raunhæfa skilmála.

 
  • Árstíðir

Eðlilegt er að setja mismunandi verð eftir árstíðum, sér í lagi ef að mikill munur er á eftirspurn. Það er ákjósanlegt að skipta upp tímabilum eins og eftirspurnin er og reyna að komast hjá því að brjóta upp árið í stutt tímabil. Árangur verður betri með einföldum verðlista sem skilar sér í fleiri bókunum.

 
  • Sýnileiki gagnvart ferðaskrifstofum

Sýnileiki gagnvart ferðaskrifstofum er mikilvægur og að vera til staðar þar sem þeir bóka. Í dag eru til markaðstorg þar sem að ferðaskrifstofur geta bókað beint inná lausa daga hjá samstarfsaðilum. Með auknum sýnileika er hægt að bæta við fleiri viðskiptum og auka þannig bókanir á gististaðnum. Markaðstorg eins og Travia kemur þínum gististað á framfæri gagnvart ferðaskrifstofum sem þú hefur ekki átt í viðskiptum við áður.

 
  • Minntu á þig

Mikilvægt er að byggja sterk sambönd við aðila sem bóka mikið á þínum gististað eða byggja upp ný sambönd. Mannlegi þátturinn skiptir ekki síður máli. Gerðu þér ferð og kíktu í kaffi til nýrra ferðaskrifstofa og sömuleiðis til þeirra sem bóka hjá þér nú þegar – vertu fersk/ur í þeirra minni!

 
  • Upplifun

Flestir ferðamenn í dag sækjast eftir ‘upplifunarferðamennsku’ eða ‘experience tourism’, sem þýðir að ferðamaðurinn er ekki beint að sækjast einungis í áfangastaðinn, heldur ferðina í heild sinni. Rannsóknir sýna að ferðamaðurinn er ekki að sækjast í ferð sem hefur endalaust af afþreyingu á helstu ferðamannastöðum, heldur er ferðamaðurinn að sækjast í tengingu við staðinn á hrifnæmann hátt. Hvað gerir ykkar stað sérstakann? Endilega deilið því með ykkar gestum.