GODO Greinar

Samkeppnisumhverfi ferðaskrifstofa

Á undanförnum árum hafa ferðaskrifstofur á Íslandi líkt og ferðaskrifstofur út um allan heim átt undir högg að sækja með tilkomu og miklum vexti erlendra sölurása á veraldarvefnum. Samkeppni um ferðamanninn hefur harðnað þar sem einfaldara aðgengi að framboði hótelherbergja, flugs og afþreyingu gerir einstaklingum auðveldara að smíða sínar eigin ferðaáætlanir sem oftast kosta töluvert minna en þeir pakkar sem ferðaskrifstofur bjóða upp á.

Ferðaskrifstofur hafa átt hvað stærstan þátt í að byggja upp ímynd Íslands á alþjóðamörkuðum með þrotlausri markaðssetningu frá upphafi ferðaþjónustu á Íslandi. Það má því með sanni segja að jarðvegurinn hafi verið vel undirbúinn af íslenskum ferðaskrifstofum með vel heppnaðri markaðssetningu sem erlendar sölurásir hafa nýtt sér með góðum árangri.

Greitt aðgengi að framboði og verði hótela er það sem sölurásirnar gera vel, ásamt því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á sérkjör, besta mögulega verðið hverju sinni og tafarlausa staðfestingu á kaupum á vöru. Þannig hafa sölurásirnar leyst vandamál fyrir bæði ferðamanninn og gististaðinn auk þess að hafa úr gríðarlegu fjármagni að moða úr til þess að markaðssetja lausnina – sem er eitthvað sem íslenskar ferðaskrifstofur eiga mjög erfitt með að keppast við. 

Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur tæknilegt umhverfi ferðaskrifstofa breyst lítið, sem er ein megin ástæðan fyrir því að greinin hefur átt undir högg að sækja á undanförnum árum.

Bókunargluggi hótela og gististaða

Vel reknir gististaðir og hótel byggja rekstur sinn á fjölbreyttu bókunar mengi í stað þess að einblína á einn hóp af viðskiptavinum. Þannig gera hótel og gististaðir í dag ráð fyrir ákveðnum hluta viðskipta sinna í gegnum erlendar sölurásir til þess að tryggja stöðugan rekstur jafnvel þó eindreginn vilji sé fyrir hendi að stunda viðskipti fyrst og fremst við íslenskar ferðaskrifstofur. 

Ferðamenn sem bóka á sölurásum bóka yfirleitt hótelherbergi með mun skemmri fyrirvara en ferðaskrifstofur eins og sjá má á eftirfarandi mynd:

Mynd 1: Bókunarfyrirvari ( úrtak frá 100 gististöðum á Íslandi )

Eins og sjá má á myndinni þá virðast bókanir frá ferðaskrifstofum og sölurásum vera tvær ólíkar vörur. Ferðamaðurinn sem bókar hjá ferðaskrifstofu er þannig mun líklegri til þess að skipuleggja sig fram í tímann á meðan einstaklingurinn sem bókar gistingu í gegnum erlendar sölurásir tekur frekar skyndiákvörðun og ákveður að stökkva á ferðalag með skemmri fyrirvara. 

Um 65% af öllum bókunum frá erlendum sölurásum koma í bókunarglugga frá 0-20 dögum fyrir komu, á meðan um 71% af bókunum frá ferðaskrifstofum eru bókaðar frá 20 dögum til eins árs fram í tímann. 

Ferðaskrifstofur ættu því samkvæmt öllu að hafa mun betra aðgengi að meira framboði til lengri tíma og þannig tryggja bókanir fyrir framtíð hótelsins, á meðan bókanir frá erlendum sölurásum sem bókast með skemmri fyrirvara ætti að líta á sem uppfyllingu upp í laus herbergi sem ekki voru bókuð frá ferðaskrifstofum. 

Ferðaskrifstofur þurfa að sýna fram á það að geta tryggt viðskipti fram í tímann, þannig að hótelin reiði sig ekki of mikið á bókanir frá erlendum sölurásum.

Framtíð ferðaskrifstofunnar

Framtíð ferðaskrifstofa byggir fyrst og fremst á aðgengi að tækni, til þess að geta boðið upp á samkeppnishæf verð gagnvart sínum helstu keppinautum, sem klárlega eru erlendu sölurásirnar. Til þess að vera samkeppnishæf gagnvart þeim, þarf ferðaskrifstofan að geta komist í sama framboð og sölurásirnar með sín eigin verð, hvort sem um ræðir samningsverð, breytileg verð eða blöndu af bæði breytilegu verði og samningsverði. 

Að auki er mikilvægt að geta keppt við erlendar sölurásir í hraða og áreiðanleika í þjónustu, m.ö.o. að geta tryggt tafarlausa staðfestingu á kaupum. Samskipti ferðaskrifstofa við hótel og gististaði hafa almennt verið á tölvupósti, en því þarf að breyta hið snarasta. Í nútíma viðskiptaumhverfi flokkast það sem hin mesta tímaeyðsla fyrir bæði hótel og ferðaskrifstofur að bíða eftir svörum hvort frá öðru; hvort það sé laust á tilteknum dagsetningum, hvort það sé hægt að bóka, hvenær nafnalisti kemur og hver staðan sé á tiltekinni bókun. 

Ferðaskrifstofan ætti ávallt að vera með beina tengingu við birgðir hótelsins og hafa þannig möguleika á að sjá hvort það séu laus herbergi til á tilteknu hóteli, breytt bókunum, afbókað herbergi, fækkað eða fjölgað herbergjum ásamt því að senda sjálf inn nafnalista, til þess að spara tíma og geta veitt tafarlausa þjónustu gagnvart sínum viðskiptavinum. Einungis með því fyrirkomulagi skapast sú mikla hagræðing innan ferðaskrifstofunnar sem á þarf að halda í samkeppni við erlendar sölurásir. Fjöldi handtaka við hverja bókun minnkar til muna og þannig sparast mikill tími til þess að sinna vinnu sem skapar meira fyrir reksturinn

Með hjálp tækninnar geta ferðaskrifstofur hæglega orðið leiðandi afl í viðspyrnu ferðaþjónustunnar þegar Covid-19 faraldrinum lýkur. Ferðamaðurinn kemur til með að ferðast á ný og Ísland verður örugglega einn heitasti áfangastaður heimsins í nýju umhverfi ferðaþjónustunnar. Ferðaskrifstofur Íslands eru í dauðafæri í dag að marka sér sess sem leiðandi afl í nýju ferða-umhverfi framtíðarinnar. Forgangsröðun ætti að byggjast á tæknivæðingu og áherslu á framþróun.

Travia er íslenskur hugbúnaður sem ferðaskrifstofur á Íslandi nýta sér í daglegu starfi í sí-auknum mæli. Með hjálp Travia hafa fjölmargar íslenskar og erlendar ferðaskrifstofur stórbætt starfsumhverfi sitt með beinu sambandi við framboð hótela og gististaða og þannig stórbætt samkeppnisstöðu sína gagnvart erlendum sölurásum.