GODO Greinar

Bókanir á nýju ári

Allir sem hafa unnið í tengslum við rekstur gististaða vita það að bókanir flæða ekki inn af sjálfu sér. Það þarf að hlúa að rekstrinum, horfa fram á við og skipuleggja næstu skref. Eitt af því sem mikilvægt er að vera vakandi fyrir þegar kemur að rekstri gististaða er bókunarstaða næstu mánuði. Hversu hátt hlutfall er bókað, hvenær og hvaðan eru bókanir helst að koma, á hvaða verði eru þær og hafa orðið einhverjar afbókanir? Ólík bókunarstaða kallar á ólíkar aðgerðir en sama hver staðan er, þá er alltaf hægt að læra af henni og reyna að gera betur. Með því að gefa sér tíma í að yfirfara stöðu rekstursins næstu mánuði aukast líkur á fjölgun bókana og yfirsýn yfir reksturinn í heild eflist. Þar að auki getur slík vinna varpað ljósi á hvaða þætti mætti bæta og hvaða lausnir eru bestar til þess.

Þegar bókunarstaðan er skoðuð er gott að yfirfara hluti eins og verð, tengingar við sölurásir, verðskrár og markaðssetningu. 

Samkeppnishæf verð

Það er alltaf tilefni til að skoða og endurmeta verð, hvort sem það er lítið eða mikið af bókunum framundan í dagatalinu. Markaðurinn breytist í sífellu og virk verðstýring mikilvæg. Verð þarf að vera hugsað bæði út frá sjónarmiði gestsins og rekstursins. Gestinum þarf að finnast hann vera að fá rétt virði fyrir peninginn á sama tíma og þið viljið fá eins hátt verð og mögulegt er fyrir vöruna. 

Hvernig eru verðin ykkar miðað við verð helstu samkeppnisaðila á svæðinu? 

Mikið af bókunum gætu þýtt að verðin séu heldur lág en ef  lítið er komið inn af bókunum næstu mánuði er vert að skoða hvort það reynist vera svigrúm til lækkunar. Þá gæti verið hjálplegt að reikna út lágmarkskostnað við hverja gistinótt til viðmiðunar.

Mörgum fallast hendur við tilhugsunina um að ákvarða verð og viðhalda þessu viðkvæma en mikilvæga jafnvægi á milli þess að halda í annars vegar góðar tekjur og hins vegar sátta viðskiptavini. Í grein Godo um verðstýringu er hægt að lesa enn frekar um mikilvægi samkeppnishæfra verða, vel skilgreinda verðflokka og fleira því tengdu. Verðstýring getur reynst bæði flókin og tímafrek og ef sú er raunin í þínu tilviki er jafnvel kominn tími á að skoða hvort aðstoð frá sérfræðingum sé eitthvað sem gæti hentað. 

Tenging sölurása

Með því að fylgjast með í gegnum hvaða sölurásir bókanir eru helst að koma er hægt að leita uppi bæði vandamál (sem mikilvægt er að leysa) og tækifæri. 

Er eignin ykkar með góðan sýnileika á öllum sölurásum? 

Ýmislegt getur haft áhrif á sýnileika á sölurásum en hann getur til dæmis minnkað ef það á eftir að fylla út einhverjar upplýsingar um gististaðinn. Einnig skiptir máli að senda sömu verð á allar sölurásir en aftur getur eignin fallið í sýnileika ef að lægri verð eru að birtast á öðrum rásum. Sölurásir leggja oft áherslu á hvers kyns tilboð og afslætti sem geta haft þau áhrif að ólík verð birtast á milli rása.

Eru bókanir að skila sér rétt inn í bókunarkerfið?

Mikilvægt er að tenging sölurása við bókunarkerfi sé rétt uppsett annars gætu bókanir verið að koma inn á röngu verði eða hreinlega ekki að skila sér í kerfið. Gott er að fara gaumgæfilega yfir tengingar á milli sölurása og bókunarkerfa. Ef upp kemur grunur um vandkvæði því tengdu er um að gera að fá aðstoð frá starfsfólki ykkar bókunarkerfis en þau eru sérfræðingar í slíkri rannsóknarvinnu. 

Verðskrár fyrir næstu tímabil

Góð samvinna við ferðaskrifstofur er mikilvægur hluti af rekstri margra gististaða. Ferðaskrifstofur eru oftar en ekki að útbúa flókna ferðapakka og sækjast því eftir einföldum og skilvirkum samskiptum. Því er mikilvægt að vanda vel til verka við uppsetningu verðskráa, halda í einfaldleikann og hafa þær auðlesanlegar. 

Hvað skiptir máli við uppsetningu verðskráa?

Stór munur er á fjölda ferðamanna eftir árstíðum hér á landi og því þarf að vera vel vakandi fyrir framboði á ykkar svæði og eftirspurn eftir gistingu. Verðin ættu að vera ákveðin í samræmi við það, einnig er gott að hafa hugfast hvaða verð eru að birtast á sölurásum á sama tíma. Gott er að fylgjast með hvenær bókanir koma inn fyrir ólík tímabil, hvort það er langt fram í tímann eða með stuttum fyrirvara. Hvað veldur? Mögulega er kominn tími á að uppfæra afbókunarskilmála en best er að gera það með sanngirni og einfaldleika í huga. 

Margar ferðaskrifstofur bóka langt fram í tímann og því er nauðsynlegt að hafa verðskrár klárar þegar kallið kemur. Vel uppsett og sanngjörn verðskrá sem sýnir verð nokkuð langt fram í tímann eykur líkur á bókunum. Tenging við Travia bætir sýnileika og þar er boðið upp á að sérsníða verðskrár fyrir ferðaskrifstofur langt fram í tímann.

Virkni markaðssetningar

Það er svo sannarlega fleira hægt að gera til að hafa áhrif á bókunarstöðu en að lækka verð. Mögulega er kominn tími á að bæta eða breyta markaðssetningu. Stafræn markaðssetning er sístækkandi fyrirbæri sem allir gististaðir ættu að vera að nýta sér. Hún þarf ekki að kosta mikið en getur hjálpað til við að fjölga bókunum og auka traffík í gegnum ykkar eigin bókunarsíðu sem er auðvitað ákveðið takmark. 

Hvernig er samskiptum við ykkar viðskiptavini háttað?

Sterkur leikur er að svara fyrirspurnum og gestaumsögnum fljótt og persónulega. Slík vinna er ákveðin markaðssetning í heimi þar sem fólk byggir ákvarðanir sínar á upplifun annarra og deilir sinni eigin. Mikilvægt er að skilgreina markaðshópinn sinn og ákveða hvernig strauma þið viljið senda frá ykkur. Samfélagsmiðla er upplagt að nýta til þess að segja ykkar sögu og leggja áherslu á það sem aðgreinir ykkar gististað frá öðrum. Sérstaða selur í dag og fólk leitast eftir hinni einstöku upplifun.

Hvað einkennir ykkar gesti?

Ef þið fáið mikið af gestum frá ákveðnu landi er hægt að höfða sérstaklega til þeirra til dæmis með því að þýða kynningarefni yfir á þeirra tungumál og kynna sér ferðavenjur þeirra. Hjá Ferðamálastofu má finna ýmsar upplýsingar varðandi ferðavenjur erlendra ferðamanna undanfarinna ára.

Er kominn tími til að setja upp ný tilboð?

Það er vitað mál að tilboð virka! Vefsíður eins og hópkaup.is og aha.is geta þar að auki virkað sem gott markaðstól til þess að auka sýnileika. Tilboð sem þessi geta verið sérstaklega hjálpleg viðbót á tímum þegar minna er af erlendum ferðamönnum.

Leitum leiða til að einfalda lífið

Við rekstur gististaða er í mörg horn að líta og gott skipulag er lykilatriði til þess að halda flækjustigi í lágmarki og auka velgengni. Mikilvægt er að halda starfsfólki vel upplýstu og samræma starfshætti svo að upplýsingar skili sér rétt inn í kerfið. Góður gagnagrunnur ætti að vera ykkar besti vinur en í hótelkerfi Godo er haldið þétt utan um gögnin og einfalt að sækja hinar ýmsu skýrslur. Starfsfólk okkar tekur brosandi á móti ykkur og er alltaf tilbúið til að aðstoða, leiðbeina og vísa á þá þjónustu sem gæti hentað ykkar rekstri til að spara tíma og tryggja gæði. 

Freyja Baldursdóttir