5 góð ráð til að auka netbókanir

Samkeppni á gistimarkaðnum hefur aukist til muna síðustu árin og því skiptir markviss netmarkaðssetning og góður sýnileiki á vefnum miklu máli. Við tókum saman 5 atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að netbókunum og vefmarkaðssetningu.
 • 1
  Breitt úrval sölurása

  Ein sterkasta stoðin í öflugri netmarkaðssetningu byggir á fjölbreyttu úrvali sölurása. Margir láta sér nægja að vera með framboð á einni eða tveimur sölurásum (s.s Booking.com), en með því er farið á mis við marga mögulega markhópa og bæði nýting og meðalverð á gistingu ná ekki hámarksafköstum. 

  Breitt úrval sölurása kallar á gott hótelkerfi sem heldur utan um framboð, bókanir og verð. Það er mikilvægt að kerfið sé beintengt sölurásunum, en með því flæða bókanir sjálfkrafa í kerfið og framboð uppfærist á öðrum sölurásum um leið. Með því hlýst gríðarlegur vinnusparnaður og minnkar um leið líkur á yfirbókunum.

  Betri nýting  á gistieiningum og þar af leiðandi aukið svigrúm til að hækka verð hlýst þegar framboði er haldið úti á fleiri sölurásum. Ekki vera smeik við að prófa nýjar sölurásir. Ef lítið bókast má skipta þeim út fyrir nýjar. 

 • 2
  Góðar umsagnir ('reviews')

  Ferðamenn eru farnir að kynna sér  æ oftar umsagnir annara gesta á viðurkenndum ferðasíðum, s.s Tripadvisor.com, eða á sölurásum áður en þeir bóka gistingu. Þar geta þeir lesið sér til um reynslu ferðamanna, hvað þeim líkaði vel við og hvað þeim líkaði ekki við á hverjum stað fyrir sig. 

  Slíkar umsagnir eru því gríðarlega mikilvægar, bæði fyrir ferðamanninn og gistireksturinn, því þær ráða oft á tíðum hvar gesturinn endar með að bóka gistingu. Þar að auki koma góðar umsagnir gististaðnum ofar á listum leitarvéla og sölurása.

  Flestum okkar er kunnugt um ofangreindar staðhæfingar, en hvað getum við gert til þess að auka líkurnar á góðum umsögnum?

  Mikilvægt er fyrir nýja gististaði að byggja upp jákvæðar umsagnir. Ein leið til þess er hófleg verðlagning (t.d. fyrstu 12 mánuði í rekstri). Lág verð lækka væntingar gesta og jákvæðum umsögnum rignir oftar inn í kjölfarið. Þannig upplifa gestir sem þeir hafi fengið meira fyrir peninginn og þeim sé komið skemmilega á óvart. Í flestum tilfellum nýtast þessar umsagnir gististöðum til að koma sér á framfæri, en með tímanum er svo hægt að hækka verðin kerfisbundið.

  Mikilvægt er að stýra væntingum gesta. Það má undir engum kringumstæðum gefa til kynna þjónustu eða gæði sem ekki eru til staðar. Það er betra að gestir hafi hóflegar væntingar og verði fyrir jákvæðri reynslu fremur en að þeir verði fyrir vonbrigðum. Gott dæmi um "slæmar væntingar" er þegar framsettar eru einungis myndir af flottasta herberginu á sölusíðum, en gestinum er svo boðið í minnsta eða síðsta herbergið sem lítur ekki eins út og á myndum.

  Síðast en ekki síst - gefið ykkur tíma til þess að svara öllum umsögnum. Þakkið fyrir ykkur. Þakkið fyrir lof eða ábendingar um eitthvað sem betur má fara og fagnið hugmyndum gesta að breytingum. Ekki fara í vörn þegar það kemur neikvæð umsögn heldur leitist við að lagfæra sífellt það sem betur má fara. Gesturinn hefur ávallt rétt fyrir sér  - líka þegar hann hefur rangt fyrir sér :)

 • 3
  Myndir, Myndir og aftur Myndir!

  Gott myndefni frá gististað er sennilega mikilvægasti þátturinn til þess að auka við netbókanir. Góðar myndir eru gulli betri í gistirekstri nútímans. En hvað má flokka undir góðar myndir og hvernig framköllum við þær?

  Það þarf alvöru myndavél og helst hæfan ljósmyndara til að sjá um verkið.  

  • Gott er að nota víðlinsu. Notið breiðustu stillingu á víðlinsunni. Því meira sem næst inn á myndina því betra.
  • Takið myndir í dagsbirtu og ekki nota flash stillinguna. 
  • Raðið handklæðum og skrautmunum snyrtilega upp. Rúmföt ættu að vera straujuð og stílhrein á rúmunum.
  • Takið góðar myndir af helstu áhöldum og tækjum í eldhúsi (t.d. kaffivél, blandara, ristavél o.þh.).
  • Mikilvægt er að hafa góðar myndir af öllum rýmum/herbergjum, en svo má ekki gleyma stemmningu sem lýsir umhverfi og andrúmslofti gististaðarins.
  • Takið nógu mikið af myndum frá öllum sjónarhornum. Því fleiri myndir því betra.
  • Takið myndir lóðrétt og lárétt á myndavélina. Þá er hægt að velja þær sem koma betur út hverju sinni á þeirri vefsíðu/sölurás sem á að nota.
  • Ef ekki er notaður þrífótur er gott að styðja sig við vegg til að koma í veg fyrir hreyfingu.
  • Notið RAW stillingu fyrir bestu möguleika á myndvinnslu eftir á. Notið ljósmyndaforrit sem þið kannist við. Ef  myndir eru skakkar breytið þeim í myndvinnsluforriti svo að það sé réttur halli á þeim.

  Með réttu myndavélinni er hægt að taka góðar myndir sjálfur en eins og áður var nefnt getur borgað sig að fá ljósmyndara í verkið. Það er fjárfesting sem skilar sér fljótt.

 • 4
  Breytileg Verðstýring

  Í netsölu er auðvelt að vera með breytileg verð í stað þess að hafa staðlaðan verðlista eins og tíðkaðist áður fyrr.

  Það þarf að vera ákveðinn verðgrunnur fyrir helstu tímabil (t.d. sumar, vetur og jafnvel vor/haust), en til að auka bókunartíðni og tekjumyndun getur skipt sköpum að uppfæra verð í takt við nýtingu og tíðarfar. Til dæmis er gott að hækka verðin á styttri tímabilum þegar vitað er að eftirspurn er mikil. Sem dæmi má nefna Airwaves tónlistarhátíðina í Reykjavik og yfir jól og áramót.

  Einnig er gott að bjóða uppá afsláttarverð fyrir lengri bókanir. Það krefst minni vinnu að hafa sömu gestina í lengri tíma en þá sem stoppa stutt við. Bókanir með ströngum skilmálum (s.s án endurgjalds - "non refundable") ættu líka að vera ódýrari og eru vinsælar á meðal ferðamanna.

  Það er því mikilvægt að geta hækkað og lækkað verð á ákveðnum tímabilum á öllum vígstöðvum. Það er tímafrekt að uppfæra verð á hverri sölusíðu fyrir sig, sem leiðir óhjákvæmilega til þess að lítið verður um verðbreytileika. Þetta getur komið í veg fyrir hámörkun á tekjum og nýtingu. Með góðu hótelkerfi sem er beintengt við sölurásir má stýra slíkum verðbreytingum á einfaldan máta og uppfæra verðin samstundis á mörgum stöðum.

 • 5
  Aukin þjónusta við gesti

  Erlendis tíðkast víða að hafa þjónustuborð ('concierge service') þar sem gestir geta fengið upplýsingur um þjónustu, afþreyingu o.fl í nágrenninu. Þetta er minna þekkt á Íslandi og óraunhæft að hafa sér starfsmann í þessu hlutverki á minni og meðalstórum gististöðum. Það er hinsvegar hægt að veita svipaða þjónustu á ýmsan máta og um leið kynna nágrenni og umhverfið með minniháttar fyrirhöfn.

  Gott hótelkerfi getur sent út persónulega vefpósta með nauðsynlegum upplýsingum s.s staðsetningu, leiðarvísi, opnunartíma, inn- og útskráningartíma gististaðarins o.s.frv. sjálfkrafa. Einnig er hægt að koma á framfæri helstu veitingarhúsum og/eða afþreyingu á svæðinu í þessum vefpóstum.
  Með þessu móti er verið að auka við þjónustu en um leið verið að einfalda upplýsingaflæði til gestanna sem kemur í veg fyrir misskilning, óþarfa bréfaskriftir og tímafrekar útskýringar eftir komu gestsins.

  ---

  Katrín Magnúsdóttir og Sveinn Jakob Pálsson

  GoDo er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Kynntu þér GoDo Property hótelkerfið fyrir gististaðinn þinn. GoDo Property hentar fyrir allar gerðir gististaða, hvort sem um er að ræða hótel, hostel eða íbúðaleigu. Hafðu samband og prófaðu kerfið án endurgjalds.