Taktu fyrstu skrefin með okkur!
Dreymir þig um að opna og reka þitt eigið gistiheimili? Það er bæði spennandi og gefandi að taka á móti gestum, kynna þeim fyrir einstakri menningu landsins og bjóða upp á gistingu í margbrotinni náttúru sem er engri lík. Ferðaþjónustan er í sífelldri uppbyggingu og ný og spennandi tækifæri að opnast fyrir rekstur gististaða.
Það er þó margt sem þarf að huga að þegar opna á gististað og í þessari grein verður farið í gegnum ferlið og fjallað um þá þætti sem þarf að vinna í, allt frá því að velja rétta eign yfir í utanumhald reksturs og tæknimál.
Velja rétta eign út frá þinni hugsjón
Það er vandasamt verk að finna hina fullkomnu eign fyrir þinn drauma gististað. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við val á eign:
- Staðsetning: Veldu staðsetningu sem er í nálægð við vinsæla áfangastaði og með góðum samgönguleiðum. Einnig er kostur að vera stutt frá verslunum og þjónustu.
- Stærð og aðstaða: Hvaða markhóp sérðu fyrir þér? Veltu fyrir þér hvernig aðstöðu og herbergi þú vilt bjóða þeim upp á og hversu stór þau ættu að vera. Sjáðu til þess að hvert herbergi sé fallega innréttað í takt við þinn stíl og bjóði upp á allar helstu nauðsynjar.
- Aðgengi: Mikilvægt er að hafa aðgengi að gististaðnum gott fyrir fólk með fatlanir. Kynntu þér reglugerðir og mismunandi útfærslur á aðgengi vel.
- Ímynd: Skapaðu ímynd í kringum gistiheimilið þitt! Einstök ímynd sem markhópur þinn heillast af og sker þinn gististað frá öðrum gefur þér mikið forskot. Í dag snýst ferðalag oft frekar um upplifun og sögu staða heldur en stærð á herbergi.
Hönnun og skipulag
Höfðaðu til gesta þinna með huggulegheitum og vinalegu andrúmslofti
- Stíll: Hannaðu rýmið út frá ímynd gististaðarins. Veldu falleg og vönduð húsgögn til þess að gestum þínum líði vel í notalegu umhverfi.
- Lín: Það getur haft mikið að segja að fjárfesta í vönduðu líni. Rúmföt, handklæði og aðrar slíkar vörur geta haft mikið að segja um heildarupplifun gesta.
- Sameiginleg rými: Leggja skal áherslu á að skipuleggja vandlega sameiginleg rými. Við viljum að gestirnir finni að þeir eru velkomnir og að sameiginleg rými skapi góða stemningu í takt við ímynd gististaðarins
- Morgunverður: Taka þarf ákvörðun um hvort að bjóða skuli upp á morgunverð eða ekki. Meta þarf kosti og galla þess að bjóða upp á morgunverð út frá hverjum gististað fyrir sig. Það getur vissulega dregið að gesti og aukið fjölda bókana ef morgunverður er í boði en á sama tíma krefst það aukningu á starfsfólki ásamt því að eldhúsaðstaða og morgunverðarsalur tekur sitt pláss.
Viðeigandi tæknilausnir
Tæknilausnir fyrir gististaði eru í stöðugri þróun og með því að velja rétt kerfi og lausnir sem henta þínum gistirekstri má á einfaldan máta spara heilmikinn tíma og minnka starfsmannahald.
- Gott hótelkerfi getur skipt sköpum þegar kemur að því að halda utan um allar bókanir. Þú getur stýrt öllu á einum stað með vel uppsettu hótelkerfi. Þaðan stýrir þú verði, framboði, tengingum við ólíkar sölurásir og getur jafnvel átt samskipti við gesti. Þar að auki er hægt að taka greiðslur og senda reikninga yfir í bókhaldskerfi og fylgjast náið með öllum rekstrinum í gegnum skýrslur.
- Það er mikilvægt að huga að innritunarferlinu. Er stefnan sett á að vera með móttöku og ef svo er, verður hún opin allan sólarhringinn? Mögulega er ‘self check-in’ besta leiðin fyrir þinn gististað og í dag er hægt að fá virkilega vel heppnaðar lausnir hvað þetta varðar. Snjalllásar geta útbúið nýjan kóða fyrir hvern gest, sem eingöngu er virkur á þeim tíma sem tiltekinn gestur er á svæðinu. Slíkir lásar koma í veg fyrir eilíft vesen á týndum lyklum og kortum ásamt því að veita töluvert meira öryggi en gömlu góðu lyklaboxin.
- Í vönduðu hótelkerfi ætti að vera einfalt að setja upp og stýra sjálfvirkum póstum sem koma öllum mikilvægum innritunarupplýsingum til þinna gesta á viðeigandi tíma.
- Við val á hótelkerfi ætti að líta til þjónustu en það getur reynst gríðarlegur stuðningur fyrir einstaklinga sem eru nýir í ferðaþjónustu að fá ráðgjöf og aðstoð frá reynslumiklu teymi.
Sölurásir:
Kynntu þér þær sölurásir sem koma til greina fyrir þinn gististað. Hvar viltu kynna gistiheimilið og selja gistingu? Sölurásir eins og Booking.com, Airbnb og Expedia koma sterkar inn, ásamt eigin heimasíðu en þaðan koma dýrmætustu bókanirnar. Gefðu þér góðan tíma til að kynnast mismunandi möguleikum sölurása svo sem þóknun, greiðsluleiðir, markaðstækifæri og fleira. og fleira.
Leitin að rétta starfsfólkinu
Það skiptir sköpum að finna rétt starfsfólk fyrir þinn gististað. Þú vilt fá fólk sem hefur ríka þjónustulund, mikla samskiptahæfni og brennur fyrir að veita framúrskarandi þjónustu. Ótrúlegustu hlutir geta komið upp í gistirekstri og lausnamiðuð hugsun og jákvætt viðhorf kemur manni oft ansi langt! Mikilvægt er að hafa skýra starfslýsingu og skilgreina hlutverk og ábyrgð starfsfólks en á gistiheimilum má þó búast við því allir þurfi að geta stokkið inní flest verk á álagstímum. Mikilvægi þjálfunar er oft vanmetið og það getur haft gríðarlega mikið að segja fyrir reksturinn að hafa metnaðarfullt og vel skipulagt starfsfólk sem starfar eftir sömu viðmiðum og starfsreglum.
Vaktaplan
Vertu með gott skipulag og búðu til raunhæft vaktaplan fram í tímann. Þar þarf að gera ráð fyrir ólíkum álagstímabilum og passa upp á að hafa sveigjanleika ef upp koma ófyrirsjáanlegar aðstæður.
Reglugerðir, lög og leyfi
Gakktu úr skugga um að gististaður þinn uppfylli allar kröfur um lög og reglugerðir ásamt því að fá samþykkt öll þau leyfi sem að sýna þarf fram á, áður en reksturinn getur hafist. Þetta er mikilvægt að skoða áður en farið er í miklar framkvæmdir eða breytingar því mögulega þarf að gera einhverjar breytingar á rýmum sem ekki voru fyrirséðar.
Njóttu ferðalagsins
Vonandi geta atriðin í þessari grein verið stuðningur fyrir þig til þess að taka þín fyrstu skref í að hefja rekstur á gistiheimili. Það er í mörg horn að líta en allt er það þess virði fyrir það skemmtilega ævintýri sem mun taka við. Ferðaþjónustan býður upp á ótrúlegustu hluti, þú munt kynnast fólki frá öllum heimshornum og hjálpa þeim að upplifa daga sem munu lifa með þeim að eilífu.
Leggðu áherslu á skipulag og horfðu fram í tímann, sjáðu fyrir þér þann gististað sem þú vilt reka og haltu fast þá hugsjón sem kom þér af stað í upphafi!
Höfundur
Freyja Baldursdóttir