Á tímum Covid-19 varð ferðaþjónusta um allan heim fyrir miklu áfalli og stöðvaðist skyndilega. Þessi tími hafði mikil áhrif á daglegt líf fólks og ýtti mögulega undir ákveðna hugarfarsbreytingu. Meiri áhersla er lögð á samveru, að njóta líðandi stundar og að skapa minningar. Nú eru ferðamenn frá öllum heimshornum að vakna til lífsins, þar á meðal frá Kína, reiðubúin og full eftirvæntingar til að kanna heiminn á ný! Þá er stóra spurningin sú: Er ferðaþjónustan tilbúin?
- Eru gististaðir nægilega vel útbúnir til að taka vel á móti stórum hópum að nýju? Hafa stafrænar lausnir og tæknileg þróun hjá gististöðum staðnað eða eru gististaðir með rétta tækni og tól til þess að mæta þörfum fjölda gesta og halda utan um stóra hópa?
Að hverju þarf að huga?
Kínverskir ferðamenn snúa aftur!
Landamæri höfuðborgar Kína, Beijing, munu opna á ný í janúar 2023 (https://www.bbc.com/news/world-asia-china-64102176) og frá 8. janúar geta kínverskir ríkisborgarar sótt um vegabréf á ný. Opnun landamæranna mun marka endalok tæplega þriggja ára takmarkanna á landamærunum. Allt frá því að tilkynnt var um opnunina hafa ferðasíður á borð við Trip.com sýnt gríðarlega aukningu í leit að flugi og gistingu. Það er því ljóst að ferðafólk frá Kína bíður í ofvæni eftir því að komast af stað í ferðalög, versla og njóta lífsins lystisemda. Búast má við því að einhverjir munu freista þess að heimsækja fjölskyldu og vini strax í janúar þegar kínverska nýárið gengur í garð.
Ferðavenjur kínverskra ferðamanna
Ferðavenjur og hugsunarháttur ferðamanna frá Kína hefur að sumu leyti breyst eftir covid (https://jingdaily.com/chinese-tourists-abroad-altiant-report/ og nú, meira en áður, virðist aðaláherslan vera á að gera vel við sig, huga að andlegu hliðinni og njóta augnabliksins. Talið er að mikil ásókn verði í lúxus gistingu fjarri borgum og áreiti. Sú staðreynd að Ísland hefur að geyma fjölda einstakra gististaða um land allt, í mikilli nálægð við stórbrotna náttúru, ætti að vera lykilatriði í markaðssetningu fyrir kínverskan markað. Þar að auki eru kínverskir ferðamenn líklegir til þess að gera vel við sig og halda upp á hin ýmsu tilefni eða einfaldlega vinna upp langan tíma af takmörkunum með ógleymanlegu ferðalagi.
Sú bylgja af ferðamönnum sem búist er við frá Kína á næstunni mun líklega einkennast af vel efnuðu fólki sem leggur áherslu á heilsu, vellíðan og fjölskyldu eða viðskipta- og menntunarmöguleika. Þetta er fólk sem hefur notað síðustu þrjú ár í að leita eftir og kynna sér sinn drauma áfangastað og mætir því með fullt hús væntinga.
Kínverskir ferðamenn á Íslandi
Opnun landamæra Kína eru stórar fréttir fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu (https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/kinverskir-ferdamenn-a-islandi) voru um 7% allra ferðamanna sem komu til Íslands árið 2019 frá Kína. Þeir dvöldu að meðaltali 6-7 nætur og heimsóknir þeirra dreifast nokkuð jafnt yfir árið sem gerir þá að mikilvægum hópi á þeim árstíðum sem almennt lítið er að gera.
Eins og kom fram hér að ofan þá eru flestir ferðamenn frá Kína oft tilbúnir til að eyða töluverðum upphæðum en á móti kemur að þeir ætlast til að fá framúrskarandi þjónustu. Kínversk menning er ein sú elsta í veröldinni og saga landsins og hefðir eru heimamönnum afar mikilvæg. Ferðamenn frá Kína kunna því margir hverjir virkilega að meta að vera mætt af skilningi og virðingu hvað varðar menningarheim þeirra. Það getur haft mikið að segja að koma til móts við ólíkar venjur þeirra. Þetta geta verið einfaldir hlutir svo sem að bæta kínverskum réttum við morgunverðarhlaðborðið, hafa hraðsuðuketil í herbergjum og hafa leiðbeiningar eða annað efni á kínversku eða myndrænu formi sem einfalt er að skilja. Það er klárlega vel þess virði að fræðast um menningu landsins og á sama tíma fá tækifæri til þess að veita framúrskarandi þjónustu.
Verum tilbúin þegar kallið kemur!
Á meðan á faraldrinum stóð neyddust því miður margir gististaðir til að loka, tímabundið eða alfarið. Sumir hafa minnkað við sig á meðan aðrir hýsa nú flóttafólk eða eru í langtímaleigu. Þetta þýðir að framboð er takmarkað, sérstaklega fyrir stóra hópa sem hafa einmitt mikið gildi fyrir rekstur gististaða.
Nú þegar áhugasamir kínverskir ferðamenn fá á ný tækifæri til þess að ferðast ættu gististaðir að líta í eigin barm og skoða hvernig þeir eru í stakk búnir til að taka á móti þessum gestum og sérstaklega stórum hópum.
Til þess að halda í við samkeppnisaðila og fá sem mest út úr hverri gistingu er mikilvægt fyrir gististaði að fylgja þróun tækni og stafrænna lausna. Gististaðir ættu að nýta hótelkerfi sem er notendavænt, sveigjanlegt og ekki síst skalanlegt. Einnig er mikilvægt að geta tengst öllum helstu sölurásum og ferðaskrifstofum, verðstýringarforritum, bókhaldskerfum og greiðsluhirðum svo eitthvað sé nefnt. Góð hótelkerfi bjóða upp á fjölda lausna hvað varðar sjálfvirkni til dæmis hvað varðar gestasamskipti og verðstýringu, sem skilar sér í gríðarlegum tímasparnaði. Þannig veitist tími meðal annars til að einbeita sér að markaðssetningu og persónulegri þjónustu við gesti.
Í Kína þekkjast ýmiss forrit sem minna eru notuð í hinum vestræna heimi. Það getur veitt kínverskum ferðamönnum mikið öryggi að geta notað tækni og forrit sem þeir þekkja, til að skipuleggja og halda utan um ferðalög sín, svo sem WeChat og Alipay.
Margir gististaðir nýta lausnir sem bjóða upp á “self check-in/check-out”. Þetta veitir gestum þann möguleika að innrita sig án þess að eiga í samskiptum við starfsfólk í móttöku. Sérstaklega eftir Covid-19 gæti þetta verið eiginleiki sem ferðamenn frá Kína myndu leitast eftir við val á gististað.
Er þinn gististaður tilbúinn?
Það er ýmislegt sem vert er að hafa í huga varðandi komandi tíma. Ferðaþjónusta á Íslandi fór almennt vel af stað eftir faraldurinn mikla en nú má búast við enn frekari streymi ferðamanna til landsins. Ferðamenn frá Kína hafa spilað stórt hlutverk í íslenskri ferðaþjónustu og stóra spurningin er hvort við séum í stakk búin til þess að taka á móti þeirra fjölmennu hópum á ný. Erum við með það sem þarf til að mæta tæknilegum þörfum ferðamanna frá Kína sem, eins og áður kom fram, er að mörgu leyti frábrugðin því sem við erum vön. Tækniþróun stóð ekki í stað í gegnum faraldurinn og mikilvægt er að kynna sér þær lausnir sem í boði eru og skilgreina hvað hentar þínum rekstri. Hver er staðan á þínum gististað og hvað er hægt að gera til þess að utanumhald með hópum sé skilvirkt og hvernig má nýta tækni til þess að bæði einfalda vinnu og hækka þjónustustig?
Nú er tíminn til þess að líta í spegilinn og gera ráðstafanir. Kynna sér hvaða leiðir eru í boði og athuga hvernig þinn gististaður passar inn í myndina af draumafríi kínverska ferðamannsins!
Höfundur
Freyja Baldursdóttir